LÖG VEGARINS

I. Kafli
Almenn ákvæði

1. gr.
Fríkirkjan Vegurinn er kirkja með þessu nafni.

2. gr.
Kirkjan trúir því að Jesús Kristur sé eini vegur mannsins til Guðs (sbr. Jóh. 3.16; Jóh. 14.6; Jóh. 1.12), að enginn geti orðið hólpinn nema fyrir trú á hann.

3.gr.
Kirkjan trúir því að Biblían í heild sé Guðs orð, innblásið af Heilögum anda. Biblían er eina yfirvald safnaðarins varðandi allt líferni safnaðarfólks og kenningargrundvöll kirkjunnar (II. Tím. 3.16; Hebr. 4.12; 1.Pét. 1.23-25).

4.gr.
Kirkjan viðurkennir að Hin postullega trúarjátning sé að öllu leyti í samræmi við Orð Guðs.

5.gr.
Hlutverk kirkjunnar er að vera samfélag og andlegt heimili kristins fólks sem starfar samkvæmt kristniboðsskipuninni í Matt. 28.18-20, Mark. 16.15-18 og Post. 1.8. Í því felst m.a. boðun fagnaðarerindisins, skírn í vatni og safnaðarstarf í krafti Heilags anda.

6.gr.
Fyrirmynd og takmark Vegarins er söfnuður Nýja testamentisins sem hefur postulana og spámennina að grundvelli en Jesú Krist að hornsteini (sbr. Efes. 2.20).

II. kafli.

Yfirvald kirkjunnar

7. gr.
Öldungar fara með yfirstjórn í málum kirkjunnar nema þar sem annað er skýrlega tekið fram í lögum þessum. Hafa þeir hlutverk sitt og skyldur samkvæmt því sem fram kemur í Ritningunni (sbr. 1. Tím.3.1-7; Títus 1.6-9; 1.Pét. 5.1-4; Post. 20.28-32; Post. 14.23; Jak 5.14. o.fl.). Öldungar bera ábyrgð á biblíulegri kenningu kirkjunnar, standa vörð gegn villukenningum, hafa agavald í siðferðilegum málum og endanlegt ákvarðanavald í markmiðum kirkjunnar.

8. gr.
Öldungar velja leiðtoga (forstöðumann) fyrir kirkjuna úr sínum hópi. Forstöðumaður veitir kirkjunni andlega og opinbera forystu á öllum sviðum hennar nema annað leiði af öðrum greinum í lögum þessum.

9. gr.
Öldungar skulu setja sér vinnureglur svo sem um það með hvaða hætti ákvarðanatökur skuli fara fram. Vinnureglur þessar skulu aðgengilegar meðlimum kirkjunnar. Öldungar bera ábyrgð á að lögum þessum sé framfylgt.

10. gr.
Brjóti öldungur af sér, ber hinum öldungunum að fjalla um mál hans og kveða upp úrskurð.

11. gr.
Innan kirkjunnar starfar 3 manna stjórn sem hefur eftirfarandi hlutverk:

1. Að hafa eftirlit með fjármunum kirkjunnar, rekstri, mannahaldi og að fjárhagsáætlun sé framfylgt. Stjórnin skal enn fremur hafa eftirlit með að bókhald sé fært skv. gildandi lögum og reglum.

2. Stjórnin skal sjá til þess að öldungar geri fjárhagsáætlun og hefur umsagnar- og
tillögurétt um gerð hennar.

3. Stjórnin er umsagnaraðili um öll fjárútlát kirkjunnar utan fjárhagsáætlunar.

4. Stjórn ásamt öldungum undirritar kaupsamninga, afsöl, veðskuldabréf o.s.frv.
eða veitir umboð til slíkra ráðstafana.

5. Stjórn ásamt öldungum skal sjá til þess að lög kirkjunnar séu í stöðugri endurskoðun.

12. gr.
Stjórn kirkjunnar skal skipuð með eftirfarandi hætti:

1. Aðalfundir velja tvo stjórnarmenn og tvo til vara. Þeir skulu kosnir í leynilegri kosningu úr hópi tilnefndra einstaklinga.

2. Öldungar velja einn stjórnarmann og einn til vara. Til að menn séu hæfir til stjórnarsetu þurfa þeir að hafa gott mannorð og hafa verið meðlimir í kirkjunni í a.m.k. tvö ár. Sami maður má ekki sitja lengur í stjórn en 4 ár samfellt.  Öldungar mega ekki sitja í stjórn kirkunnar.  Ef stjórnarmaður er skipaður í embætti öldungs, verður viðkomandi að láta af störfum í stjórn kirkjunnar. Ef stjórnarmaður lætur af störfum utan aðalfundar, skal varamaður taka stöðu hans og gegna henni fram að næsta aðalfundi.

13. gr.
Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum og setur reglur um starfshætti sína. Stjórnin boðar til aðalfunda og annarra safnaðarfunda. Stjórninni er skylt boða til safnaðarfunda ef öldungar fara fram á það. Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnar er mættur. Varamenn skal boða á stjórnarfundi og tekur varamaður sjálfkrafa sæti aðalmanns á fundinum ef sá síðarnefndi boðar forföll eða mætir ekki. Varamenn skulu hafa málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt, nema þeir taki sæti aðalmanns.

14. gr.
Allar ákvarðanir um fjárútlát og önnur fjármál utan samþykktrar fjárhagsáætlunar skulu öldungar kynna stjórn og færa sérstaklega í fundargerðarbók með fyrirfram tölusettum síðum.

III. kafli

Val öldunga

15. gr.
Öldungar kirkjunnar skulu til lengri tíma ekki vera færri en 5 að tölu. Öldungar velja sjálfir nýja öldunga í hópinn og skulu þeir vera einhuga um valið. Þar sem talað er um öldunga í lögum þessum er átt við öldungahópinn sem heild nema annað sé tekið fram.

Öldungahópurinn getur vísað öldungi úr hópnum ef 2/3 hlutar hans eru því samþykkir. Einnig getur safnaðarfundur vikið öldungum frá ef 2/3 hlutar hans eru því samþykkir. Meirihluti öldunga getur skotið slíkri ákvörðun til nýs safnaðarfundar og tekur hún þá ekki gildi fyrr en hann hefur fjallað um hana og samþykkt á ný. Slíkur fundur skal haldinn innan þriggja vikna frá fyrri fundinum. Um boðun til slíkra funda gilda sömu reglur og um boðun til aðalfunda.

16. gr.
Til að öldungar séu hæfir til starfa þurfa þeir að uppfylla eftirtalin skilyrði:

1. Lifa lífi sínu eftir þeirri siðfræði sem Biblían boðar og séu sú fyrirmynd sem þar er ætlast til og njóti trausts og álits í söfnuðinum.

2. Vera virkir í safnaðarstarfi kirkjunnar, í því felst m.a. að sækja samkomur og öldungafundi. Þetta gildir ekki ef óvirkni stafar af tímabundinni dvöl utan starfsvæðis kirkjunnar.

3. Eiga náið og persónulegt samfélag við Drottin.

Ef öldungur hefur rýrt svo mjög álit sitt siðferðislega að hann geti ekki með góðu móti rækt hlutverk sitt, skal hann víkja. Þetta útilokar ekki að hann geti orðið öldungur síðar ef hann vinnur sig í áliti á ný.

IV. kafli

Aðalfundir

17. gr.
Aðalfundur er æðsta vald í málefnum kirkjunnar, þó getur hann ekki farið inn á valdsvið öldunganna eins og það er skilgreint í lögunum nema hann breyti þeim.

18. gr.
Aðalfundir skulu haldnir einu sinni á hverju almanaksári.
Stjórn kirkjunnar skal boða til aðalfunda með a.m.k. fjörurra vikna fyrirvara.  Skal það gert með auglýsingum á safnaðarsamkomum, tilkynningu á auglýsingatöflu í húsnæði Vegarins og á vefsíðu safnaðarins.

Í fundarboði skal tekið fram hvort tillögur til lagabreytinga hafi borist stjórn kirkjunnar. Skulu slíkar tillögur vera til sýnis á skrifstofu kirkjunnar þar sem hver og einn getur kynnt sér þær. Berist tillaga um lagabreytingar eftir að fundarboð hefur verið sent út skal afgreiðslu hennar frestað til næsta aðalfundar nema 4/5 hlutar greiddra atkvæða á aðalfundi samþykki að hún skuli afgreidd.

19. gr.
Til að aðalfundur sé hæfur til að breyta lögum kirkjunnar þurfa a.m.k. 20% meðlima hennar 18 ára og eldri að vera á fundinum.

Sé ekki tilskilinn meirihluti til staðar má nýr aðalfundur sem boðað er til innan 30 daga frá fyrri fundinum breyta lögum þessum þótt tilskilinn meirihluti náist ekki á honum. Ákvæðum 1.-7. greinar má þó ekki breyta nema að meirihluti öldunga sé því einnig samþykkur.

20. gr.
Á aðalfundi skulu fara fram öll venjuleg aðalfundarstörf.

21. gr.
Telji einhver sig tilheyra kirkjunni án þess að það komi fram í safnaðarskrá eða þrátt fyrir útstrikun úr henni og vill hafa stöðu safnaðarmeðlims á aðalfundi, skulu öldungarnir skera úr um málið.

22. gr.
Ef ekki hefur verið farið að settum reglum um boðun til aðalfundar þá er hann samt löglegur, ef um lítilvægt atriði er að ræða og engar verulegar líkur á að það hefði breytt niðurstöðum hans.

23. gr.
Aðalfundur skal setja sér fundarsköp sem gilda þar til ný hafa verið sett. Slíkar breytingar taka gildi næsta aðalfund á eftir. Aðalfundur getur leyft afbrigði frá fundarsköpum.

V. kafli

Meðlimir kirkjunnar

24. gr.
Þeir sem vilja tilheyra kirkjunni þurfa að uppfylla eftirtalin skilyrði:

1. Hafa tekið á móti Jesú Kristi sem frelsara sínum.

2. Líf þeirra fari ekki gegn þeim siðferðishugmyndum sem söfnuðurinn byggir á samkvæmt Biblíunni.

3. Að kirkjan sé þeirra andlega heimili.

4. Þeir lýsi því yfir að þeir vilji tilheyra kirkjunni og beygja sig undir starfshætti hennar,
hugsjónir og skyldur.

5. Atkvæðisbærir safnaðarmeðlimir skulu vera orðnir 18 ára gamlir.

Öldungar kirkjunnar meta hvort meðlimir eða væntanlegir meðlimir uppfylli skilyrði 1-3.

25. gr.
Þeir sem vilja segja sig úr kirkjunni skulu tilkynna það skriflega. Ef ljóst er af orðum einhvers eða athöfnum að kirkjan er ekki lengur hans andlega heimili, að mati öldunga hennar, er heimilt að skrá viðkomandi úr henni.

26. gr.
Ef einhver vill tilheyra kirkjunni án þess að skrá sig í hið opinbera lögskráða trúfélag er honum það heimilt. Viðkomandi er þá  fullgildur þátttakandi í starfi kirkjunnar og fullgildur þátttakandi á almennum safnaðarfundum. Á aðalfundum hefur hann aðeins málfrelsi en ekki atkvæðisrétt eða kjörgengi til stjórnarsetu. Til að menn hafi atkvæðisrétt á aðalfundi þurfa þeir að vera meðlimir í kirkjunni og uppfylla þau skilyrði sem fram koma í 24. grein.

27. gr.
Öldungarnir skulu sjá til þess að andlegt fólk verði fengið til að skera úr málum milli bræðra og systra í samfélaginu sem annars ættu undir veraldlega dómstóla. Þeir sem leita eftir slíkum úrskurði verða að skuldbinda sig til að hlíta honum sem endanlegri niðurstöðu. Að öðrum kosti mun samfélagið ekki skera úr þrætunni.

Sömu einstaklingum skal heimilt að úrskurða í málum milli bræðra og systra utan samfélagsins ef til þeirra verður leitað.

Engum meðlima samfélagsins verður gert að skyldu að fara þessa leið.

VI. kafli

Fjármál kirkjunnar

28. gr.
Tekjur kirkjunnar grundvallast á frjálsum framlögum og tíundum safnaðarmeðlima og annarra velunnara starfsins. Að auki hefur kirkjan tekjur af sóknargjöldum.
Stjórn kirkjunnar skal sjá til þess að safnaðarmeðlimir verði sem best upplýstir um það hvernig fjármunum hennar er varið og skal ekkert leynt fara nema brotin sé með því sjálfsögð og eðlileg trúnaðarskylda.

Löggiltur endurskoðandi utan kirkjunnar skal gera upp safnaðarreikninga og semja ársreikning. Reikningar safnaðarins og ársreikningur, samþykktur af öldungum og stjórn skal liggja frammi á skrifstofu kirkjunnar síðustu vikuna fyrir aðalfund. Á aðalfundi skal gera skilmerkilega grein fyrir reikningunum og bera þá upp til samþykktar. Á aðalfundi skal ennfremur leggja fram til umsagnar fjárhagsáætlun fyrir yfirstandandi ár.

Stjórn kirkjunnar skal halda uppi innra eftirliti með fjármálum, reikningshaldi og bókhaldi. Stjórnin setur sér sjálf reglur um framkvæmd eftirlitsins.

29. gr.
Stjórn kirkjunnar ber á hverjum tíma að kynna sér nákvæmlega fjárreiður hennar og fá mánaðarlega upplýsingar um stöðu fjármála kirkjunnar og allra deilda hennar.

Öldungar skulu í samvinnu við stjórn sjá til þess að fjárreiður kirkjunnar séu í góðu horfi.
Allar ákvarðanir sem hafa í för með sér veruleg útgjöld fyrir kirkjuna eða eru veruleg miðað við umfang þeirrar starfsemi er þau varða skulu bornar undir stjórn kirkjunnar til umsagnar.

Stjórnin getur ekki ógilt ákvarðanir sem öldungar kirkjunnar hafa tekið eða ógilt samþykki sem þeir kunna að hafa gefið fyrir ráðstöfunum og ber ekki heldur ábyrgð á þeim. Allar lántökur þurfa hins vegar samþykki stjórnar og hefur hún neitunarvald gagnvart öldungum varðandi lántökur.

VII. kafli

Ýmislegt

30. gr.
Samþykktum þessum má breyta með samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða á aðalfundi (1.-7. grein þó einungis séu öldungar kirkjunnar því einnig samþykkir), auð og ógild atkvæði skulu ekki talin með. Stjórn samfélagsins getur breytt heimili og varnarþingi.

31. gr.
Verði kirkjan lögð niður renna eignir hennar til viðurkenndrar kirkjulegrar starfsemi samkvæmt nánari ákvörðun síðasta aðalfundar.

Samþykkt á aðalfundi í apríl 1994.
Breytingar á 1. gr. og 3. mgr. 28. gr. á aðalfundi í maí 1997.
Breytingar á 11, 12, 13, 14 og 18. gr. 2.mgr. á aðalfundi 14. maí 1998.
Breytingar á 9, 11, 12, 13, 18 og 28. gr., á framhaldsaðalfundi 4. júlí 2006.[